Persónuleg pólitík, popúlismi eða bara pólitík?

Það eru um fjögur ár síðan ég steig inn í veruleika „hefðbundinna“ stjórnmála. Líf mitt, eins og fjölmargra annarra sem tilheyra jaðarsettum hópum samfélagsins, hefur reyndar alltaf verið pólitískt. Þegar ég segi „hefðbundin“ stjórnmál er ég náttúrulega að vitna til þess sem almennt er vitnað til sem stjórnmála, innan þar til gerðra stofnana þar sem formlegar ákvarðanir eru teknar um líf okkar og leikreglur samfélagsins.

Kosningabarátta flokksins míns, Sósíalistaflokks Íslands, í borgarstjórnarkosningum 2018 var á margan hátt eftirtektarverð og í raun söguleg. Frambjóðendur tilheyrðu allir hópum sem höfðu reynslu af óréttlæti samfélagsins og erindið var aukið réttlæti og kröfur um breytingar á kerfum borgarinnar þannig að fólk hafi meira um líf sitt og afdrif að segja. Baráttan var keyrð á persónulegum sögum frambjóðenda af kerfislægu óréttlæti með kröfunni um breytingar til handa öllum þeim sem þurfa að ströggla til að láta enda ná saman og bjarga sér undir ágangi stöðugs mótlætis í kerfi sem ekki er hannað fyrir okkur. Fólk sem ekki er „samkeppnishæft“ í kapítalísku samfélagi.

Við náðum inn einum (og næstum tveimur) fulltrúum í borgarstjórn. Oddviti flokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, komst þar inn með glæsilegri kosningu og Daníel Örn Arnarson, sem skipaði annað sæti listans, var grátlega nálægt því að komast inn líka, en tók sæti sem varaborgarfulltrúi. Sanna braut blað í sögu íslenskra stjórnmála, annars vegar með því að vera fyrsti hörundsdökki íslendingurinn til að hljóta kjör í pólitískt embætti og hinsvegar fyrir að vera yngsti borgarfulltrúi sögunnar, en þann titil tók hún af Davíð Oddssyni.

Sósíalistar neituðu að taka þátt í myndun meirihluta, einkum vegna þess að sá meirihluti innihélt harðlínunýfrjálshyggjuflokkinn Viðreisn sem við sjáum almennt lítinn samstarfsflöt með. Við fengum harða gagnrýni frá vinstri vegna þessarar ákvörðunar og sú gagnrýni varð enn óvægnari þegar við ákváðum að sameinast með hinum flokkunum í minnihlutanum um kjör í ráð, nefndir og stjórnir fyrirtækja borgarinnar. Þar vorum við sökuð um að hafa myndað einhverskonar bandalag með hægri flokkum, um að vinna með Sjálfstæðisflokknum og að hafa svikið lit og að við værum greinilega bara úlfur í sauðagæru. Ekki var hlustað á rök um að þetta samkomulag næði bara yfir þetta afmarkaða verkefni og innihélt engar kvaðir um frekara samstarf. Það skilaði okkur hinsvegar fleiri áhrifasætum en við hefðum annars haft og skilaði m.a. yðar einlægri sæti Sósíalista í stjórn Félagsbústaða, þar sem ég sit sem fyrsti leigjandi hjá félaginu í þeirri stjórn.

Nú er kjörtímabilið senn á enda og Sósíalistar búa sig brátt undir næstu kosningar til borgarstjórnar (og vonandi í bæjarstjórnir fleiri sveitarfélaga) í maí á þessu ári. Við höfum verið hálf hornreka í þessu verkefni, enda ofboðslega fá, og skoðanir okkar, tillögur og gagnrýni oftar en ekki meðhöndlaðar eins og einhverskonar aðskotahlutur í „alvöru umræðu“. Okkur er mikið sagt að hitt og þetta „sé ekki hægt“ eða að þetta sé nú þegar gert og bent á eitthvað sem er ekki nálægt því sem við erum að tala um. Tillögur okkar hafa oftar en ekki verið afgreiddar sem „popúlískar“ þó svo að þær komi allar innan úr reynsluheimi borgarbúa og eru svar við þeim vandamálum sem jaðarsettir hópar eru að glíma við. Við höfum eftir fremsta megni reynt að koma kröfum fátæks fólks inn á borð borgarstjórnar en skilningurinn á þessum kröfum er í takt við meðferð samfélagsins á þessum hópum. Fjarlægur.

Við sósíalistar erum ekki í pólitík til þess að fá þægilega innivinnu, öðlast einhverskonar völd eða fá athygli. Við erum í þessu til að bjarga lífi okkar. Við erum ekki bara fígúrur í fjölmiðlum, eins og mörg okkar eru að jafnaði smættuð í. Við erum fólkið sem ekki hefur verið hlustað á allt of lengi og við vitum að baráttan er ekki háð hefðbundnum vinnutíma eða afmörkuðu starfssviði stofnana. Hún varðar líf og afkomu fólks og við þurfum að virkja það til þátttöku til þess að gera öllum þetta ljóst. Við þurfum að breyta kerfunum sem við þurfum að lifa við þannig að þau henti og virki fyrir okkur. Við erum baráttuafl. Því fyrr sem skilningur fólks á á hugtakinu „stjórnmál“ verður ljós, því betra.

Þótt við séum komin með fótinn inn fyrir dyrnar á „hinum hefðbundnu“ stjórnmálastofnunum (a.m.k. í borginni. Þingið er annar pistill) þá eigum við langt í land með að gera róttækar breytingar. Við þurfum að vera miklu fleiri, bæði innan þessara stofnana og utan, til þess að sjá alvöru breytingar. Kjörnir fulltrúar sækja umboð sitt til almennings á fjögurra ára fresti. Þess á milli eiga þeir það til að hegða sér eins og eftir það séu allar ákvarðanir aðeins þeirra og fjarlægjast uppruna sinn og rætur. Við viljum að okkar kjörnu fulltrúar séu í virku og gagnvirku sambandi við fólkið sem þeir eru að berjast fyrir og nýti raddir þeirra og reynslu innan þessara hefðbundnu stofnana. Lokamarkmiðið hlýtur svo að vera að brjóta upp þessar stofnanir og búa til kerfi sem virka fyrir okkur.

Stjórnmál eru ekki leikvangur efristéttar samfélagsins. Þau eru lífsbarátta almennings. Þau eru persónuleg, þau eru samfélagsleg og þau eru lífsnauðsynleg.

Gleðilegt baráttuár!

Leave a comment