Dagforeldradílemman

Þetta viðtal við Sigurgyðu Þrastardóttur, dagforeldri í Reykjavík, vakti upp minningar frá því að ég var síðast með barn á þessum aldri. Þá var ég atvinnulaus og óvinnufær eftir meðgönguna og gersamlega örmagna í alla staði. Ég var ein með barnið (plús þau börn sem ég átti fyrir) og fékk því bara 6 mánuði í fæðingarorlof en gæsla hjá dagfroeldri er miðuð við 9 mánuði, sem var raunveruleg lengd fæðingarorlofs tveggja foreldra.

Ég þurfti að skrá mig atvinnulausa eftir fæðingarorlofið en ég mátti það ekki nema vera með daggæslu fyrir barnið. Ég man eftir örvæntingunni þegar ég leitaði að dagforeldri en það var allsstaðar fullt og mig minnir að ég hafi farið á biðlista hjá alla vega tveimur aðilum. Ég var í þokkabót í raun óvinnufær þannig að ég sótti um veikindagreiðslur til stéttarfélagsins. Þetta var afskaplega mikill frumskógur og ég man hvað þetta var ruglingslegt fyrir manneskju með ungabarn sem í þokkabót var veik og í algerri örmögnun plús ungling og grunnskólabarn á heimilinu. Þetta var vægast sagt hræðilegur tími.

Það er ekki að undra að ég muni ekki í smáatriðum eftir hvað ég gerði eða í hvaða röð en það sem ég man var að það var enginn sem gat bara aðsoðað mig í gegnum þetta allt. Ég vil því taka undir með Sigurgyðu um þörfina fyrir teymi sem leiðir foreldra í gegnum þessi ferli. Manneskja á þessum stað hefur einfaldlega ekki bolmagn í allt þetta vesen, hringja út um allt, sækja um alls konar, bíða eftir framfærslu úr alls kyns sjóðum á meðan daglegt líf hangir á bjöllunni.

Ég endaði á að fá yndislega dagmömmu sem starfaði í hverfinu mínu, sem var sveigjanleg í alla staði og kom til móts við mig eins og hún gat. Ég er ákaflega þakklát fyrir hana og annað fólk sem aðsoðaði mig eins og það gat í gegnum þetta ferli. Það er einfaldlega ómetanlegt að hafa fólk í þessu mikilvæga starfi sem hefur skilning á aðstæðum fólks.

Það sem situr eftir er hversu sundurlaus þessi blessuðu kerfi eru og hversu auðvelt það er að detta í gegnum glufur í kerfinu. Þessu þarf svo sannarlega að breyta.

Leave a comment