
Fyrr í kvöld varð ég þess heiðurs aðnjótandi að taka þátt í þessum umræðum um fátækt með þessu eldklára eðalfólki.
Birna Kristín Sigurjónsdóttir, Geirdís Hanna EllýogKristjánsdóttir og Hildur Oddsdóttir hafa allar starfað með mér í Pepp Ísland – Grasrót fólks í fátækt. Sigurgyðu Þrastardóttur man ég svo vel eftir úr herferð Eflingar um mannsæmandi laun og Kolbeinn H. Stefánsson hefur náttúrulega unnið gríðarlega mikilvægar rannsóknir á fátækt á undanförnum árum.
Fátækt er kerfislægt vandamál og er ekkert frekar tekjuvandi en útgjaldavandi, heldur samspil þessara tveggja þátta. Hvers vegna er t.d. leigukostnaður svona hár? Af hverju þurfum við húsnæðisbætur til að eiga fyrir leigu? Af hverju duga ekki launin okkar bara fyrir þessu öllu?
Er það vegna þess að húsnæði er markaðsvara en ekki sjálfsögð mannréttindi og hluti af innviðum samfélagsins? Sama má spyrja um heilbrigðisþjónustu og menntun. Kostnaður er ekki náttúrulegur þáttur heldur manngerður. Allt er í eðli sínu „ókeypis“ en við metum virði þess og það að meta virði sjálfsagðra hluta hærra en lægstu laun samfélagsins hlýtur að vera vísbending um ákaflega skakkt verðmætamat.
Þar liggur hundurinn grafinn og á meðan við lítum framhjá því erum við ekki að gera annað en að hlaupa um með hriplekt vaskafat að grípa regnið í stað þess að gera við þakið.

Leave a comment