Það er ofboðslega erfitt að orða þennan pistil með varfærnum hætti. Ég mun því ekki endilega gera það. Hinsvegar er ég hugsi yfir #metoo bylgjunni sem gengur yfir núna. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn eða einstök mál, heldur langar mig að taka á samfélagsmeini sem heitir kapítalismi, sem bókstaflega gengur út á að verðlauna fávitaskap og þar með ofbeldi.
Kapítalismi er byggður á þeirri afleitu hugmynd að við séum stöðugt alltaf í samkeppni við hvert annað. Þannig gerum við næstum hvað sem er til þess að vera betri en næsta manneskja og það kostar að bæta sig. Þessi stanslausa keppni við allt og alla lætur okkur stöðugt vilja fjárfesta í alls kyns dóti og þjónustu sem gerir okkur betri, fallegri, sterkari, klárari (þó deila megi um það), flottari, hraðskreiðari, tæknivæddari eða ríkari en næstu manneskju. Það dynja á okkur alls kyns ímyndir og meintar fyrirmyndir sem við getum mælt okkur við. Fyrirmyndir sem við borgum hvað sem er til að líkjast, jafnvel keppa við.
Einn hvimleiðasti fylgifiskur kapítalismans er græðgi og í raun stólar hann á að við séum öll gráðug. Að ef við fáum tækifæri til að öðlast eitthvað þá séum við aldrei ánægð, heldur viljum alltaf meira. Þetta á auðvitað við um sumt fólk og svo vill til að þetta er fólkið sem gengur vel í kapítalismanum. Meiri efnisleg gæði tryggja meiri völd. Völd yfir öðrum.
Þá komum við að þeim ömurlega vanda sem hefur skotist upp á yfirborðið á samfélagsmiðlum að undanförnu. MeToo byltingarnar, þar sem ömurlegt kynferðisofbeldi hefur sýnt sig að grasseri í samfélaginu. Það áhugaverðasta við flestar þær frásagnir er samhljómurinn. Valdamiklir, vinsælir menn sem nýta sér stöðu sína gagnvart yngri konum sem ekki hafa eins öflug félagsleg tengsl og þeir. Þetta byggir gjarnan á valdatengslum þar sem gerandinn er ríkur og/eða frægur en þolandinn á einhvern hátt jaðarsettur.
Ef við spáum aðeins í poppkúltúr undanfarinna áratuga þá er ljóst að hann stýrist ekki af drifi okkar til að vera gáfuð, góð eða djúpvitur. Hann segir okkur ekki að spyrja spurninga eða skilja veröldina sem við búum í. Þvert á móti þá segir hann okkur að vera sexý, hafa gaman (endalaust), eiga peninga og eyða þeim í alls konar glingur með svo stuttan endingartíma að það þarf að skipta því út reglulega. Hlutir verða gamlir á nokkrum mánuðum og það er náttúrulega ógeðslegt að hafa eitthvað gamalt í eftirdragi. Oj!
Neysluhyggjan nær ekki aðeins yfir veraldlegar eigur, heldur líka yfir fólk. Það er ekki nóg að eiga eina konu (af því að kapítalisminn er að mestu mældur út frá þörfum gagnkynhneigðra cis karlmanna, sem eru um leið algildur mælikvarði karlmennsku), heldur þarftu líka að eiga kærustur eða a.m.k. að stunda það reglulega að eiga allskonar ævintýraleg kynlífssambönd utan heimilisins. Til að geta átt slík sambönd þarftu konur/fólk sem ekki er líklegt til að klaga þig eða reyna að fletta ofan af hvað þú ert mikið fífl. Það er því nokkuð ljóst að þú þarft að finna fólk í þessi verkefni sem er á einhvern hátt háð þér eða undirskipað. Gott líka ef viðkomandi er ekki líkleg til að vera trúverðug ef hún skyldi tala. Ég meina, það trúir enginn heilvita manneskja einhverjum gellum sem stunda kynlíf með giftum mönnum! (Ég vona að fólk skynji kaldhæðnina)
Nú er ég búin að rekja vissa atburðarás sem er náttúrulega ekki algild og einu aðstæðurnar sem kynferðisbrot eiga sér stað. Það geta ekki allir tilheyrt þessum hópum samfélagsins. Hvað með fátækt fólk?
Fátækt fólk keppir líka innbyrðis því samfélag kapítalisma setur á það skömm og kröfu um að „vinna sig út úr fátæktinni“. Fátækt býr líka til aðstæður þar sem bæði þolendur og gerendur úr þeim hópum eru negldir í sinn efnahagslega raunveruleika. Fátækt er ofbeldi í sjálfu sér, sem vætlar niður kynslóðir og býr gjarnan til einhverskonar keðjuverkandi ofbeldisáhrif.
Hvert er þá helsta vandamálið?
Vandamálið er samfélag misskiptingar og sundrungar. Það er samfélag einstaklingshyggju þar sem hver er sinnar gæfu smiður og samvinna er eingöngu drifin áfram af gagnkvæmum ávinningi en ekki gagnkvæmri umhyggju.
Vandamálið er að sumu fólki er kerfisbundið haldið utan við tækifæri til þess að afla menntunar og að sú menntun sem öllum stendur jafnt til boða er takmörkuð og ekki sniðin að allra þörfum. Hún vekur ekki áhuga. Er léleg samkeppni við lúxuslífið sem ég lýsti hér að ofan og ekki næstum því jafnskemmtileg eða sexý.
Vandamálið er stéttskipting og leynt kynjamisrétti, innbyggður rasismi og fordómar. Fordómar geta n.b. bæði verið gagnvart öðrum og okkur sjálfum. Sjálfshatur býr til og kyndir undir ofbeldi.
Vandamálið er skortur á tækifærum. Skortur á lífi og að mynda tengsl við annað fólk sem hafa einhverja þýðingu. Skortur á virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum. Skortur á mannréttindum.
Vandamálið er réttarkerfi sem er byggt upp til að vernda eignaréttinn en ekki til að tryggja mannréttindi, mannhelgi eða öryggi fólks. Þess vegna er það mjög langsótt og lýjandi fyrir fólk að leita réttar síns vegna kynferðisbrota. Að auki er réttarkerfið ekki fyrir fátækt fólk, jafnvel ekki fólk úr millistétt. Verðmiði réttlætis er á pari við hönnunarvöru. Réttlætið fæst ekki í lágvöruverslun.
Kapítalisminn verðlaunar fífla- og fávitaskap. Getum við plís hætt því og farið að rækta í okkur sálina? Getum við kennt börnunum okkar að rækta sínar sálir líka, en ekki kenna þeim að keppa við næstu manneskju um eitthvað sem engu (eða öllu, eftir atvikum) máli skiptir. Getum við kennt þeim virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum?
Getum við bara plís fengið sósíalisma?
Takk!


Leave a comment