Minningin um bell hooks

Þann 15. desember síðastliðinn lést bandaríski rithöfundurinn, fræðikonan, baráttukonan og samfélagsrýnirinn bell hooks. Hún lést á heimili sínu 69 ára að aldri.

Hér að neðan er að finna umfjöllun um andlát hennar á Democracy Now, þar sem vonkona hennar og kollegi, Beverly Guy-Sheftall, prófessor í kynjafræði við Spelman College, fer yfir feril hennar og boðskap.

Það er ómögulegt að gera bell hooks skil í einum stuttum pistli eða korters viðtali, enda mun ég örugglega fjalla aftur um verk hennar á þessari síðu í náinni framtíð þar sem þau hafa verið ein af undirstöðunum í mínum eigin akademísku verkefnum. Hún er höfundur hugtaksins „Imperialist, white supremacist, capitalist patriarchy“ sem hún notaði ávalt sem óaðskiljanlega heild til að lýsa því valdakerfi sem við búum við í heiminum. Hugtakið fangar umsvif kerfisins sem heildar og hvernig það er innbyrðis lagskipt þar sem flest fólk er staðsett innan þess með ákveðin (og mismikil) forréttindi þótt það beinist um leið gegn þeim á annan hátt. hooks talar um að við þurfum öll sífellt að hugsa krítískt um eigin valdastöðu gagnvart öðrum og einnig að vinna gegn kerfisbundnu sjálfshatri sem samfélagið hefur sett á okkur undir oki þessa kerfis og fær okkur til að gangast undir vald annarra.

hooks var gegnheil baráttumanneskja frelsis og vinkona hennar lýsir henni hér sem kennara af lífi og sál. Á youtube er að finna fjöldann allan af opnum umræðum þar sem bell ræðir ýmis málefni við annað baráttu- og fræðafólk. Eftir hana liggja nokkrir tugir bóka sem allar eru mjög aðgengilegar og læsilegar, enda var það hennar markmið að tala til sem flestra sem þurftu að heyra boðskap hennar.

Síðustu ár var ástin þungamiðja í verkum hennar, og þá sérstaklega sjálfsást svarts fólks, sem Beverly útskýrir svo vel hér að neðan. Í bandarísku samfélagi, þar sem svörtu fólki er kerfisbundið kennt að hata sjálft sig og eigin sjálfsmynd (og um leið annarra sem líkjast því sjálfu) er það pólitísk róttækni að rækta sjálfsást. Sjálfsást, og þar með sjálfsumhyggja (e. self care), er lykillinn að því að þú getir barist fyrir réttindum þínum og annarra og án hennar breytum við ekki samfélaginu.

Fráfall bell hooks heggur svo sannarlega skarð í baráttuna fyrir betri heimi en verkin hennar lifa áfram og verða vonandi áfram drifkraftur breytinga og róttækra aðgerða.

RIP bell hooks og takk fyrir allt. ❤

Demeocracy Now remembers bell hooks.

Leave a comment